Ráðstefna um tengsl hreyfingar og þroska barna með áherslu á snemmtæka íhlutun var haldin í Háskóla Íslands mánudaginn 6. júní síðast liðinn.
Þar komu fram innlendir og erlendir sérfræðingar sem koma að mati, greiningu, meðferð og umönnun barna með frávik í þroska heila og taugakerfis. Fyrstu merki um ýmis heilkenni, sjúkdóma, adhd einhverfu og fleira eru oft á tíðum frávik í hreyfiþroska sem jafnvel má greina hjá börnum niður í nokkurra vikna gömul. Til að hægt sé að grípa inn og hefja meðferð sem allra fyrst, á þeim tíma sem heili og taugakerfi er í hve mestri mótun, er mikilvægt að þekking á þessum einkennum sé til staðar hjá fagfólki og umönnunaraðilum ung- og smábarna. Einnig er mikilvægt að meðferðarúrræði séu í boði allt frá fyrstu tíð, svo hægt sé að vinna með börnum, jafnvel þó formlegrar greiningar sé enn beðið.
BHRG-stofnunin í Ungverjalandi hefur sérhæft sig í rannsóknum á tengslum hreyfingar og þroska heila og taugakerfis barna og þróun á matstækjum og meðferðum. Hefur hún náð góðum árangri og nýtur mikillar virðingar. Forstöðumaður stofnunarinnar, Katalin Lakatos PhD í sjúkraþjálfun, er einn fremsti fræðimaður heims á sínu sviði og á ráðstefnunni gafst einstakt tækifæri til að kynnast störfum hennar og starfsemi BHRG-stofnunarinnar.
Frummælendur ráðstefnunnar voru sammála um mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og að töluvert vantaði upp á til að börnum með frávik sé sinnt með viðunandi hætti. Ljóst er að mikill vilji og þekking er til staðar hjá íslensku fagfólki og á ráðstefnunni voru kynnt mörg metnaðarfull og framsækin verkefni á þessu sviði. Langir biðlistar eftir formlegri greiningu og frásagnir foreldra um hæg viðbrögð kerfisins við áhyggjum þeirra af þroska barna sinna benda þó til þess að margt megi bæta.
Öllum fyrirspurnum um efni og umfjöllun ráðstefnunnar sem og BHRG á Íslandi og alþjóðavísu má beina til aðalskipuleggjanda ráðstefnunnar, Krisztinu G. Agueda, á netfangið bhrg@hreyfiland.is